148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[14:59]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér sem einn af flutningsmönnum tillögu til þingsályktunar um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs, fyrst og fremst til að þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir vandaða vinnu í málinu og til að koma þeirri skoðun á framfæri að ég fagna nefndarálitinu og breytingartillögunni sem því fylgir. Ég tel að breytingin sem felst í tillögu nefndarinnar nái mun betur fram markmiði tillögunnar um að endurskoða það mælitæki sem við Íslendingar notum til að meta og mæla verðbólgu. Valið á því tæki sem við notum hefur afgerandi áhrif á heildargreiðslur heimilanna af verðtryggðum húsnæðislánum, eins og rakið er ítarlega í greinargerð með tillögunni.

Það sem er fyrst og fremst til bóta í tillögunni eins og hún liggur fyrir nú er að endurskoðunin er ekki bundin við vísitölu neysluverðs heldur er lagt til að fleiri vísitölutegundir verði skoðaðar og helst komi til álita að skoða vísitölu neysluverðs, samræmda vísitölu neysluverðs og vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar. Svo eru fleiri verkefni sem eru undir, þ.e. að við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti og áhrif sem tillögur verkefnisstjórnar um endurmat peningastefnu kunna að hafa á vísitölur, verðtryggingu og vaxtastefnu Seðlabankans.

Ég vil að lokum ítreka að ég fagna nefndarálitinu og breytingartillögunum.