148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það væri gott ef hér væri virk samkeppni, almenn samkeppni, í bankageiranum. Það er nú varla með svona fáa banka að það takist og á það við um ýmsan iðnað á Íslandi, því miður, vegna smæðar hagkerfisins eins og við þekkjum. Ég ætla ekkert að karpa meira um hver sagði hvað eins og ég sagði.

Það er vissulega sjálfstætt verkefni að efla samkeppni. En gerist það þá ekki í stórum hagkerfum þar sem er virk samkeppni að þegar þar verður verðbólguskot hækka bankar einfaldlega vextina til að vega upp á móti því? Ég myndi halda að það gerðist nákvæmlega það sama. Ég veit fyrir víst að það gerist nákvæmlega það sama. Það er þannig sem bankar vinna. Þeir eru þarna til að græða peninga. Fólk getur alveg hneykslast á því en það er samt þannig.

Hvað varðar það hvort bankarnir fæli fólk inn á verðtryggingu: Ég veit það ekki. Ég reyni að vega og meta kostina sem við mér blasa hvert sinn og mér finnst það ekkert alltaf mjög einfalt. En ég þarf alltaf að taka marga þætti inn í mengið, eins og t.d. hversu hratt ég vil eignast það sem ég er að fá lánað fyrir. Sem dæmi. Og þar er fleira inni, líka jafngreiðslulán og breytilegir vextir og alls konar. En það bara breytir engu. Auðvitað hækka bankarnir vextina ef það kemur verðbólguskot. Telur hv. þingmaður það vera þannig að ef hér hefði orðið hrun 2008 án verðtryggingar, að bankarnir hefðu bara látið sig hafa það? Já, já, best að tapa bara fullt af peningum, skiptir engu máli. Ég held ekki. Ég held að bankar séu í því að græða peninga. Þess vegna held ég að þeir hækki vextina. Eins langt og þeir komast upp með án þess að fæla fólk af markaðnum í heild sinni. Hvort sem það er verðtryggt eða óverðtryggt, bankanum er alveg sama svo lengi sem hann getur rukkað inn fyrir áhættunni sem hann er að taka, eða væri annars að taka.

Ég endurtek spurninguna: Telur hv. þingmaður ekki (Forseti hringir.) að það myndi gerast í almennilegu stóru hagkerfi þar sem er virk samkeppni á bankamarkaði?