148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er miklu stærra og alvarlegra en svo að það sé í raun verjandi og eyðandi á það orðum að menn séu að reyna að sannfæra hver annan um að atvinnufyrirtæki starfi að því markmiði að hagnast. (HHG: Einmitt.) Það bara liggur alveg fyrir og er morgunljóst. Enginn ágreiningur um það.

En við þurfum, hv. þingmaður og aðrir, að nálgast þetta viðfangsefni af metnaði. Hluti af þeim metnaði á að vera fólginn í því að reisa girðingar við því að fyrirtæki sem starfa hér í fákeppni geti að geðþótta komið fram gagnvart viðskiptamönnum sínum. Það er sjálfstætt málefni sem ég vona að við hv. þingmaður og aðrir fáum tækifæri til að ræða síðar, hverjar þessar girðingar ættu að vera.

Ég leyfi mér að segja, herra forseti: Er það sjálfgefið að fjármálastofnanir hafi til þess ótakmarkaða heimild hvaða vexti þær kjósa að setja ofan á verðtryggð lán í ljósi þess að engin fullnægjandi samkeppni er á slíkum markaði og engar erlendar viðmiðanir við að styðjast? Er þá bara sjálfgefið að það sé eftirlátið þessum fjármálastofnunum að ákveða það að geðþótta? Er það sjálfgefið að það sé ákveðið að það sé falið fjármálastofnunum að geðþótta að endurskoða vexti þegar slíkt er uppi án þess að þeim séu settar rammar skorður um hvert megi vera lögmætt tilefni fyrir slíka vaxtaákvörðun? Er það bara þannig að ef þessi banki, (Forseti hringir.) sem náttúrlega er öðrum þræði fjárfestingarbanki, er búinn að tapa á einhverri vitleysu geti hann bara velt því yfir á sína viðskiptamenn, heimilin, fyrirtækin og þess vegna ríkið eins og hv. þingmaður bendir á? Hér er stórt og mikið viðfangsefni.