148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni prýðisræðu. Við erum að ræða um vísitölur, eins og breytingartillaga hv. efnahags- og viðskiptanefndar hljóðar upp á, að meta forsendur við útreikning verðtryggingar, þ.e. þennan vísitölugrundvöll sem ég tel að sé málinu mjög til bóta. Ég fagna því og er ánægður með að hv. þingmaður er samþykkur þessu áliti eins og kemur fram og hv. þingmaður gerði vel grein fyrir í ræðu sinni.

Uppistaðan í ræðu hv. þingmanns var baráttan um verðtrygginguna sem slíka og sem grundvöll lánasamninga, sérstaklega til húsnæðiskaupalána heimilanna. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir þann skaðvald sem verðtryggingin er í þessu tilliti. Ég ætla að spyrja hv. þingmann út í þær — ég ætla ekki að segja klisjur, en þær kenningar sem uppi eru um þennan skaðvald, að verðbólgan valdi óstöðugleika og verðhækkunum í sjálfri sér. Við getum ímyndað okkur að kostnaðurinn fari út í samfélagið, að heimili og fyrirtæki þurfi að taka hann á sig og velta honum út í verðlagið. Þetta er eitt sem við erum að berjast við. Svo bara eltir þetta skottið á sjálfu sér í þessu tilliti.

Önnur er að verðtryggingin valdi hærra vaxtastigi. Svo þessi þriðja, sem Seðlabankinn hefur reyndar tekið undir, þ.e. að þetta taki bitið úr hagstjórnartækinu, vaxtastýringartækinu. Ef hv. þingmaður myndi fara yfir þessa þrjá þætti. Takk.