148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:33]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil þá svara síðustu fyrirspurninni. Því hefur verið haldið mjög eindregið fram af hálfu Seðlabankans, og ég hef engan mann heyrt andmæla því, að verðtryggingin hafi afar truflandi áhrif fyrir framkvæmd peningastefnunnar eins og hún er rekin af hálfu bankans, á grundvelli samkomulags Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma. Þannig að ég tel þetta ágreiningslaust.

Reyndar er það þannig að þau þrjú atriði sem hv. þingmaður spyr mig um, ekkert af þeim atriðum kom fyrir í ræðu minni. En hvort verðtryggingin valdi óstöðugleika í sjálfu sér vil ég leyfa mér að nefna að þegar Seðlabankinn kom á fund efnahags- og viðskiptanefndar, frekar en fjárlaganefndar, leyfði ég mér nú að spyrja Seðlabankann út í þetta atriði. Því fyrir þessa eða í krafti þessarar sjálfvirku vítisvélar sem verðtrygging felur í sér, hækkar alla höfuðstóla og þar með auðvitað efnahagsreikning bankanna, hver væru líkleg peningaleg áhrif af þessum þætti? Ég vil leyfa mér að segja að þessi fundur er nú til á vef Alþingis. Þar kemur glögglega fram að Seðlabankinn vék sér að minnsta kosti undan því á þeim fundi að svara þessu atriði.

En þetta er auðvitað alveg sjálfstætt athugunarefni og að mínum dómi hreint ekki fjarri lagi.