148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[16:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði að við værum svo háðir innflutningi á nauðþurftum. En ég heyrði hann í ræðu fyrr í dag, held ég, þar sem hann hvatti mjög til þess að við færum að flytja inn meira af nauðþurftum, ergo landbúnaðarafurðir, sem við framleiðum reyndar hér í landinu með ágætum árangri. En þær eru dýrar hérna, m.a. vegna þess að vaxtastig er hátt og erfiður aðgangur að lánsfé. En það eru nú aðrir hér nálægt okkur sem halda úti sjálfstæðri peningastefnu og gengur takk bærilega; Norðmenn að vísu undir ágjöf núna. Þeir flytja náttúrlega út gríðarlega mikið af framleiðslu sinni, olía og fiskur í miklu meira mæli en við erum að flytja út. Þannig að þetta virðist nú lukkast bærilega. Ég ítreka: Er það ekki bara viðhorfsbreyting sem þarf hérna? Er það ekki viðhorfsbreyting úti í Seðlabanka, viðhorfsbreyting í bankakerfinu sem er ofvaxið? Er það ekki þar sem við þurfum að taka til en ekki að láta almenning sífellt blæða fyrir það hversu illa þessu er stjórnað?