148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[16:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, að það er sjálfsagt mál að gefa neytendum val. Mér finnst það einmitt skynsamleg nálgun að segja að það geti jafnvel verið misjafnar forsendur til verðtryggingar; með svipuðum hætti og við getum í dag valið milli óverðtryggðs eða verðtryggðs láns getum við valið á milli þess á hvaða grundvelli það lán sé verðtryggt. Það er í raun ekkert sem bannar slíkt fyrirkomulag. Ég held að það sé bara ágætt að fara í gegnum þá æfingu að meta kosti og galla hverrar aðferðar fyrir sig. Við vitum að vísitala með húsnæði hækkar að jafnaði meira en vísitala án húsnæðis yfir lengri tímabil, en einmitt þegar kreppir að hefur vísitala með húsnæði tilhneigingu til að hækka minna en vísitala án þess. En að meðaltali yfir mjög löng tímabil er það alveg klárt að vísitala án húsnæðis hækkar heldur minna.

Ég hef hins vegar ágæta sannfæringu fyrir því að það muni þá endurspeglast í vaxtakjörum viðkomandi lána, að heldur hærri vextir verði á þeim lánum sem bera vísitölu sem að jafnaði skilar minni hækkun. Á endanum liggi þarna til grundvallar eitthvert nafnvaxtastig sem menn miði vaxtakjör sín út frá.

Ég held hins vegar, út frá því sem hv. þingmaður hóf mál sitt á, að það væri mjög gagnlegt fyrir okkur að meta þetta. Við tölum alltaf um að það sé kostnaður við sjálfstæða peningastefnu sem við séum tilbúin til þess að taka á okkur. Við höfum aldrei reynt að takast á við að verðmeta ávinninginn, hverju það skilar okkur raunverulega. Ég held að það skili okkur ekki þeim ávinningi sem margir vilja meina. Ég held þvert á móti að það skili okkur fyrst og fremst meiri sveiflum og hærra vaxtastigi.