148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[17:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum fengið staðfestingu á því að þetta mál verður tekið upp hjá nefndinni. Það er gott til þess að vita. En það fellur almennt innan þess málefnasviðs sem nefndinni var falið að sinna, sem var að endurskoða þann ramma sem gildir um tjáningarfrelsið á Íslandi og að bæta vernd okkar gagnvart tjáningarfrelsinu.

Ég vil ekki á þessari stundu rjúka af stað og nefna einstök dæmi um hvað við er átt, en sú framkoma veldur mér töluverðum áhyggjum að farið sé af stað með meiðyrðakröfu á hendur fjölmiðils sem fellur augljóslega innan ramma 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og að halda því til streitu upp á æðsta dómstig málum sem falla augljóslega innan 6. gr., og gera það í krafti þess að menn eiga talsverða fjármuni, og gera það jafnvel endurtekið. Það er nokkuð sem ástæða er til að hafa áhyggjur af í íslensku samfélagi.

Það er kannski ágætt að fara nánar út í það við 1. umr. um frumvarp okkar, sérstaklega þetta með að fella niður málskostnað, vegna þess að í þeirri greinargerð förum við rækilega í gegnum hvers vegna við pössum upp á að alltaf verði rökstuðningur fyrir því hvers vegna fjölmiðlar eru látnir bera málskostnað af því að hafa verið sýknaðir í meiðyrðamálum. Þar held ég að umræðan ætti að liggja alveg sérstaklega.

Ég kem kannski á síðustu spurningu þingmannsins í næsta andsvari.