148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:42]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir þetta andsvar. Ég get sagt það af fullri hreinskilni að verði málið samþykkt, eins og hv. þingmaður leggur til með breytingartillögu sinni, þá verður það ekki gert í breiðri sátt, svo það sé nú bara sagt. Það er mín skoðun.

Varðandi það hvort vísa ætti máli til ríkisstjórnar sem þingmenn Miðflokksins legðu fram og þeir vildu ná í gegn, ef það myndi ekki vera gert í breiðri sátt, þá verð ég nú að segja að þetta mál er nú stærra en svo að það sama geti átt við um öll önnur mál. Þetta er stórt mál, þetta er grundvallarmál, eins og ég vitnaði til í ræðunni áðan og fleiri þingmenn þar á undan. Margir eru sammála um, og flestir, held ég, að það mál þurfi að taka í breiðri sátt. Mér finnst það ekki alveg koma þessu máli við.