148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu sem hann hélt hér áðan. Það var eiginlega eitt sem stakk mig meira en annað í því sem hann sagði, þegar hann ræddi, hvað á ég að segja, þá staðreynd eða þá beiðni eða þann vilja að ungt fólk væri látið í friði gagnvart áróðri og kynningu o.s.frv.

Þetta rifjaði upp fyrir mér að í meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þessu máli fengum við á okkar fund gesti sem ræddu einmitt í þessa veruna. Fulltrúar ungs fólks sem komu á vettvang höfðu áhuga á því að fá kynningu en vildu samt ekki, eins og þau sögðu sjálf, að pólitíkusar væru að þvælast í skólanum hjá þeim. Það er eitt sem ég hafði þá áhyggjur af og hef enn og það er fyrirkomulag slíkrar kynningar.

Verði þetta frumvarp að lögum erum við að tala um að það þurfi með einhverjum hætti að nálgast grunnskólabörn. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi skoðun á því hvernig hægt væri að koma slíkum kynningum fyrir. Það hefur svo sem ekki alveg með þennan kosningaaldur að gera. Þegar börnin mín voru sex ára, í „den tid“, fengu þau inn um lúguna kynningarbækling frá umferðarskólanum Ungir vegfarendur. Ég hef ekki orðið var við að einhver slík kynning hafi verið í undirbúningi fyrir unglinga sem eru að verða 18 ára, og yrðu þá 16 ára verði frumvarpið að lögum. Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á því, hvernig hann telur að best væri að nálgast ungt fólk til þess að kynna fyrir því þessi réttindi og þær skyldur sem kosningarrétturinn felur í sér.