148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég skil áhyggjur hv. þingmanns. Það kom líka í ljós í meðferð þessarar ágætu hv. nefndar, í máli fulltrúa menntamálaráðuneytisins, að þar á bæ er í sjálfu sér ekki til neitt miðlægt efni sem hægt er að senda út í grunn- og framhaldsskóla. Það virðist vera í valdi hvers og eins kennara hvernig hann eða hún kynnir stjórnmálastarf. Einhvern veginn sló það mig þannig að í sjálfu sér væri miklu æskilegra og eðlilegra að skólayfirvöld, og þá er ég að tala um menntamálaráðuneytið, tækju höndum saman við stjórnmálaflokkana og fengju fulltrúa þeirra til að kynna stjórnmál fyrir börnum og unglingum í skólum. Þá er ég ekki að tala um flokkastjórnmál, ég er að tala um stjórnmál á breiðum grunni. Eins og ég segi: Þetta var ekki fyrir hendi þegar kosningaaldurinn var lækkaður niður í 18 ár þannig að þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt.

Áður en við stígum jafn stórt skref og örlagaríkt og við ræðum hér finnst mér það raunverulega ósanngjarnt að við ætlum unglingum að taka þátt í stjórnmálastarfi og kjósa ef við erum ekki búin að veita þeim einhverjar upplýsingar, ég ætla ekki að segja leiðsögn, um pólitískt ástand yfir höfuð. Og þá segi ég aftur: Ekki í pólitískum áróðri, ekki með flokkspólitískri innrætingu heldur almennum upplýsingum um (Forseti hringir.) gildi kosningarréttarins. Mér þætti gott að fá álit hv. þingmanns á þessu.