148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir þessar vangaveltur. Hann dregur í raun saman kjarna máls á mun skemmri tíma en sá er hér stendur gerði í heillangri ræðu. Það er alveg hárrétt að nefndin velti því fyrir sér hvort ekki ætti að geyma þetta — ég ætla ekki að ganga svo langt að segja „að vinna betur“. Heilmikil vinna hefur átt sér stað í þessu ferli öllu, bæði þegar meiri hluti hv. fjárlaganefndar lagði þetta fyrst fram á 143. þingi og síðan hefur einhver vinna átt sér stað. Tekið hefur verið tillit til athugasemda. Eins og komið hefur fram í samtali okkar hér, og hv. þingmaður kom inn á, þá eru stofnanir sem eru að taka gjald, t.d. eins og markaðsgjald Íslandsstofu. Nú er hæstv. utanríkisráðherra að leggja fram sérlög um Íslandsstofu. Þar er væntanlega komið inn á tekjur. Það á eftir að koma hér til umræðu frekar úr hv. utanríkismálanefnd.

Ég held að við verðum alltaf með einhvers konar álitamál uppi. Nefndin mat það svo að rétt væri, til að liðka til fyrir ferlinu, að stíga þetta skref hér og nú. Frumvarpið bauð svolítið upp á það að halda málamiðluninni áfram. Nefndin sammæltist um það, það náðist samstaða um að klára málið með þessum hætti, það skal viðurkennast. En það var enginn þrýstingur, ég vil taka það fram. Þetta var bara á umræðustigi í nefndinni, ólík sjónarmið um það. En samstaða náðist um að stíga þetta skref eins og það birtist í þessari umferð.