148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var engin gildra, en það var nákvæmlega þangað sem ég var að fara. Þingsályktunartillaga um kjötrækt liggur fyrir þinginu, ég á því miður eftir að mæla fyrir henni. Þar er einfaldlega um að ræða tæknilegt ástand sem gerir að verkum að við þyrftum alla vega ekki að flytja slík prótein á milli landa. Fæðuöryggi og matvælaöryggi yrði þannig tryggt, slétt út raunar, hvar sem er í heiminum. Að vissu leyti þarf líka að viðhalda ákveðnu orkuöryggi og húsnæðisöryggi.

Hv. þingmaður var ansi naskur á að giska á hvert ég væri að fara með þessari spurningu. Kjarninn í þessum tollum, alla vega í þeirri umræðu sem við höfum verið í núna, er sá að við þurfum að verja innlenda framleiðslu. En það er engin þörf á því að flytja á milli landa mat sem við getum framleitt á nákvæmlega eins hátt hvar sem er í heiminum, á nákvæmlega sama ódýra hátt, ef kjötrækt væri stunduð.

Til viðbótar við það væri alveg örugglega enn eftirspurn eftir íslenskri fæðuframleiðslu, matvælaframleiðslu. Við erum með mjög lífræna og góða framleiðslu sem yrði tvímælalaust eftirspurn eftir í kjötræktarumhverfi. Kjötrækt útrýmir bara ákveðinni verksmiðjuframleiðslu á dýrum til kjötvinnslu. Okkar iðnaður er ekki verksmiðjuframleiðsla heldur mun heilsusamlegri, lífrænni og sjálfbærari framleiðsla en verksmiðjuframleiðslan sem kjötrækt myndi koma í staðinn fyrir. Þá værum við með mjög verðmæta útflutningsvöru ásamt því að tryggja fæðu- og matvælaöryggi með tækni sem kostar sama og ekki neitt hvar sem er í heiminum.