148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

Störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú vita allir hversu mikilvægt það er að stöðva framleiðslu og dreifingu kjarnorkuvopna. Kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaup er alþjóðlegt vandamál sem hefur verið reynt að stemma stigu við frá því að kjarnorkusprengjur voru fyrst fundnar upp og með takmörkuðum árangri.

Einnig er þekkt mikilvægi þess að tryggja að sér í lagi Íran kjarnorkuvæðist ekki. Það er líka að öðru leyti mjög mikilvægt að við förum að bjóða Írönum sem hafa boðist til að kjarnorkuvæðast ekki inn úr kuldanum og fá þá með til að stunda viðskipti við umheiminn á ný og vera þjóð á meðal þjóða. Þetta skiptir máli vegna þess að við vitum að frjálslyndi er afleiðing alþjóðavæðingar og samvinnu á alþjóðavettvangi og frjálslyndi dregur úr öfgum og eflir lýðræði, nokkuð sem við vitum að hefur oft verið þörf á þar á bæ. Í grundvallaratriðum þarfnast Íran heimsins.

Í gær ákvað Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að slíta samningi við Íran fyrir sínar sakir. Þetta voru stórkostleg mistök sem munu valda miklum vandræðum. Það er miklu að fagna í viðbrögðum Evrópusambandsins við þessu. Juncker, Tusk og Mogherini komu öll óvenjusterk fram og sögðu mjög skynsamlega hluti um nauðsyn þess að samningurinn héldi. Það eru fordæmi fyrir því að Evrópusambandið gangi hart fram gegn svona ákvörðunum Bandaríkjanna, t.d. þegar Helms-Burton-lögin voru sett á sínum tíma kom reglugerð 2271/1996 sem vó á móti.

Í grundvallaratriðum er nauðsynlegt að öll lönd heimsins, hvort sem eru Evrópulönd eða önnur, taki sig saman um að leyfa Donald Trump ekki að spilla heimsfriðinum, það má ekki gerast. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)