148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í byrjun febrúar las ég á heimasíðu dönsku skattaskrifstofunnar um úrvinnslu Dana á Panama-skjölunum. Þar kemur fram að kaup á skjölunum hafi nú þegar margborgað sig fyrir danska ríkið þó að úrvinnslu sé langt frá því lokið. Útilokað hefði verið að fá vitneskju um skattsvikin og innheimta skattinn nema vegna kaupa á skjölunum. Í kjölfarið óskaði ég eftir skriflegum svörum frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um stöðuna á úrvinnslu skjalanna hér á landi, hve há upphæð hefði runnið í ríkissjóð, hvort nægir fjármunir og þekking væri til staðar til að vinna að málunum hjá skattembættunum, og óskaði eftir samanburði við Danmörku hvað þetta varðaði.

Nú eru liðnar rúmar tíu vikur frá því að hæstv. ráðherra fékk spurningarnar og ekkert bólar á svörunum. Ekkert land í öllum heiminum átti eins marga fulltrúa í Panama-skjölunum og Ísland miðað við höfðatölu. En eigum við heimsmet í að vinna úr skjölunum og innheimta skattinn sem átti að skjóta undan? Við þurfum að fá svör við því. Hvað ætli tefji fyrir þeim svörum?

Við áttum líka Norðurlandamet í fjölda. Um 600 Íslendingar komu fyrir í gögnunum, en 500 Svíar, þótt 30 sinnum fleiri búi í Svíþjóð en á Íslandi. Þetta var bara ein lögfræðistofa.

Mörg óbeinu áhrifanna af notkun skattaskjóla er erfitt að meta til fjár. En óhætt er að fullyrða að notkun þeirra stuðlar að vaxandi ójöfnuði og grefur undan velferðarsamfélaginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)