148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

borgaralaun.

[16:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég get í rauninni tekið undir margar efasemdir og vangaveltur sem hæstv. forsætisráðherra setur fram. Það er hins vegar alveg rétt, eins og kemur fram hjá hv. málshefjanda, að þessi nýja iðnbylting mun leiða til þess að valdið getur færst frá vinnuaflinu til fjármagnsins, að ágóðinn af tækniþróuninni verði eftir hjá fyrirtækjunum og kjör almennings batni ekki að sama skapi, með öðrum orðum að eignaójöfnuður aukist.

Þótt það sé í rauninni gott að fyrirtæki græði má það ekki draga úr möguleikum stjórnvalda til að tryggja bæði efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Það er einhver tími í að vélar leysi öll störf mannsins af hólmi og mér finnst við þurfa fyrst og fremst að fara yfir allar hugmyndir sem tryggja að ríkisvaldið geti staðið undir góðri og mikilli samneyslu. Ef rétt er haldið á spilunum fylgja þessum tæknibreytingum gríðarlegir möguleikar. Við sjáum fram á meiri framleiðni sem er forsenda þess að við getum brugðist við hækkandi lífaldri og öðru slíku. Við getum farið að framleiða vistvænni vöru sem er forsenda þess að við getum tekist á við loftslagsógnina. Við gætum útrýmt fátækt í heiminum með þessari nýju tækni en ef rangt er á málum haldið getum við líka lent í því að eignaójöfnuður aukist sem kyndir undir ófriði og hleypir öllu í bál og brand.

Það er auðvitað nauðsynlegt að skoða þessi mál og að því leyti til er áðurnefnd þingsályktunartillaga og þessi umræða ágætisinnlegg (Forseti hringir.) en fyrst og fremst þurfum við að skoða velferðar- og jöfnunarkerfið, skoða skattkerfið og hvernig við eigum að breyta því og þá er í sjálfu sér alveg einboðið að ræða líka borgaralaun.