148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:14]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er ekki mikill skákmaður. Ég er satt að segja mjög lítill skákmaður. Ég er bara enginn skákmaður og kann ekkert skák. Og þess vegna skil ég ekki þá skák sem hér er tefld. Hún er mér ofviða. Mig langar engu að síður að taka undir það sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson sagði hér áðan varðandi þá nefnd sem við sitjum báðir í, allsherjar- og menntamálanefnd, og þann góða samstarfsanda sem ríkt hefur þar og það vinnulag sem verið hefur til fyrirmyndar. Þar til allt í einu nú að í gangi er einhver skák sem er mér ofviða að taka þátt í og hefur orðið til þess að tvö mikil framfaramál, tvö ágæt mál, annars vegar um stafrænar smiðjur, svokölluð „fablöb“, og hins vegar um kvennastéttir, (Forseti hringir.) ná ekki hingað inn en við þráum öll að fá að ræða þessi mál.