148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[18:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil ræða aðeins hvers vegna ekki er hægt að taka okkar tillögu á dagskrá og afgreiða úr nefndinni, varðandi staðarvalsgreininguna. Það er einn flokkur í ríkisstjórninni sem hefur verið algjörlega hlynntur því að fara í staðarvalsgreiningu. Þá er hægt að vitna í blaðamannafund sem var haldinn í október 2017. Þar boðaði Framsóknarflokkurinn til blaðamannafundar og þar kom fram að flokkurinn óttast að alvarleg mistök séu í uppsiglingu við staðarval á nýju þjóðarsjúkrahúsi. Hringbraut sé óheppileg staðsetning, mikið rask hljótist af framkvæmdum þar og umferðarmannvirki ráði nú þegar ekki við umferð í nágrenni spítalans. Okkur finnst skynsamlegt að setja af stað óháða úttekt, m.a. með aðkomu erlendra sérfræðinga, um hvort ekki sé hægt að byggja nýjan spítala á nýjum stað.

Þetta kemur frá einum ríkisstjórnarflokknum, Framsóknarflokknum, þannig að það hlýtur að vera hægt að koma því til leiðar að við fáum að ræða þetta mikilvæga mál.