148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég neyðist til þess að taka undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa bent á þann halla sem er í því að ráðherrar svari spurningum sem beint er til þeirra. Það er lögbundinn hámarkstími. Það er hægt að biðja um undanþágu, en undanþága á að vera sértilfelli, það á ekki að vera hin almenna regla. Það að verið sé að draga svör í upp undir þrjá mánuði er algjörlega óboðlegt.

Í sama samhengi hef ég áður beðið hæstv. forseta, að vísu annan forseta en hér situr nú, um að standa með þinginu í því að reyna að láta þingstörfin ganga á eðlilegan hátt.

Nú erum við hér á fyrsta degi eftir langt hlé með dagskrá upp á tvo liði — tvo dagskrárliði. Þó stendur eftir heill hellingur af þingmannamálum og öðrum málum sem mættu alveg vera á dagskrá í dag og mættu alveg komast í gegnum þá tromlu sem hér er. Það er ekki ásættanlegt að þetta ástand vari lengur. Við verðum að fá svör fyrr og verðum að fá eðlilegan gang í mál á þinginu.