148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:22]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Bara örstutt sem ég vil bæta við. Hér er verið að kvarta undan rétt rúmlega 300 fyrirspurnum (Forsrh.: Það var enginn að kvarta.) á fimm mánaða tímabili. Það eru 11 ráðherrar, það þýðir í rauninni um það bil sex fyrirspurnir á ráðherra yfir fimm mánaða skeið. Þetta er varla þannig að starfslið ráðuneytanna geti ekki aðstoðað við úrlausn þessara mála.

Til að impra aftur á dagskránni. Þetta snýst kannski ekki bara um að fá fram undirbúnar og munnlegar fyrirspurnir þó svo að það væri vissulega ágætt, heldur er mikill skortur á því að þingmannamál komist áfram í gegnum þingið. Ég veit ekki hvers vegna þetta tefst svona. Það er engin góð skýring önnur en sú að það er kannski ákveðið viljaleysi hjá hæstv. ríkisstjórn og forseta þingsins til að leysa úr þessu, en auðvitað eiga þingmannamál að fá jafnan forgang á við önnur mál.