148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það er hlutverk Alþingis að fylgjast með störfum ráðherra og stjórnsýslunnar. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur ber heitið Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis. Fyrsti kafli sáttmálans fjallar um eflingu Alþingis. Þar segir, með leyfi forseta, að ætlunin sé að:

„… styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu.“

Síðan segir:

„Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess.“

Nú skal ég segja ykkur hve mikið er að marka þessi fögru fyrirheit og nefna hér dæmi.

Ég hef sérstaklega fylgst með störfum ríkisstjórnarinnar í málefnum Arion banka vegna þess að þau varða mikla fjárhagslega hagsmuni alls almennings. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar þann 7. maí spurði ég hvort ríkisstjórnin væri í viðræðum við vogunarsjóðina um að falla frá forkaupsrétti ríkisins á hlutabréfum Kaupþings í Arion banka. Svarið var nei. Tveim dögum síðar, á fundi fjárlaganefndar 9. maí, spurði ég um það sama. Engin svör. Daginn eftir, 10. maí, kemur fram í Fréttablaðinu að stjórnvöld hafi náð samkomulagi við Kaupþing um að falla frá forkaupsrétti á hlutabréfum Kaupþings í Arion banka. Í blaðinu kemur einnig fram að samkomulagið hafi náðst helgina áður, sem var þá 5. og 6. maí sl.

Herra forseti. Það var auðveldara fyrir blaðamenn að fá upplýsingar um málið en Alþingi. Í þessu máli öllu hefur eftirlitshlutverk Alþingis verið hunsað með freklegum hætti. Það er alvarlegt mál. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er sáttmáli um ráðherraræði og áhrifaleysi Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)