148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Nú á auðvitað eftir að koma í ljós hvaða meðferð málið fær í þinginu. Það verður mælt fyrir því í dag og að því búnu kemur umfjöllun á vettvangi allsherjar- og menntamálanefndar og annars staðar. Það er hins vegar rétt að þess sé getið við þessa umræðu, eða þessa atkvæðagreiðslu um afbrigði, að málið hefur legið fyrir og verið opinbert lengi. Það hefur verið til kynningar á vef Stjórnarráðsins lengi. Hagsmunaaðilar hafa haft tök á að kynna sér málið lengi. Það er ekki eins og hér sé verið að henda inn óvæntum tíðindum eða óvæntri sprengju. Öll efnisatriði málsins hafa legið fyrir um langa hríð. Þetta ber að með óvenjulegum hætti, með þeim óvenjulega hætti að ekki er búið að taka þessa gerð inn í EES-samninginn. Þing Liechtensteins og Noregs eru rétt nýbúin að klára þetta. (Forseti hringir.) Ég held að Noregur hafi klárað í síðustu viku. Þetta er auðvitað í óvenjulegu umhverfi, við verðum að horfa á það. En menn geta hins vegar ekki látið eins og hér sé verið að koma með óvænt tíðindi, nýjar upplýsingar eða eitthvað sem hefði átt að koma mönnum á óvart. Hér er um að ræða Evrópureglur sem menn hafa verið að finna leiðir til að laga íslenska löggjöf að, en efnisatriðin, meginreglurnar, hafa legið fyrir um langa hríð.

(Forseti (ÞE): Forseti biður þingmenn um að virða ræðutíma.)