148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Persónuverndarmálin eru eitt af því mikilvægasta sem við stöndum frammi fyrir vegna þeirra tæknibreytinga sem átt hafa sér stað, sér í lagi með samfélagsmiðlunum þar sem fólk er farið að gefa persónuupplýsingar sínar til stórra deiliaðila, veitna, til þess að fá að vita hvort þeir séu Daenerys Targaryen eða Jon Snow í Game of Thrones. Við kaupum okkur svoleiðis upplýsingar með því að gefa persónuupplýsingar okkar. Það er í rauninni bara hið opinbera, ríkið eða Evrópusambandið í þessu tilfelli og reglugerðin sem við erum að innleiða hvað það varðar, sem geta gert þetta. Þetta er ofboðslega mikilvæg reglugerð. Það er glannalega bratt að koma með hana inn í þingið þegar við eigum samkvæmt starfsáætlun þingsins að slíta þinginu eftir viku, og áætla að við getum unnið svona gríðarlega mikilvæga og víðtæka löggjöf á svona stuttum tíma. Það er glannalegt.

Ég ætla bara að vona að við tökum okkur tíma inn í sumarið ef við ætlum að gera þetta vel. Við höfum kallað eftir að fá lengri tíma til að umsagnaraðilar sem vilja leggja inn og koma með athugasemdir við málið inn í þingstarfið, (Forseti hringir.) fái þann tíma aðeins lengdan. Ég held að það sé komið upp í tíu daga, sem er eiginlega skemmsti mögulegi tíminn sem er hægt að vinna þetta á. En við getum ekki gert þetta með glannahraði hér í þinginu. Mér heyrist að það séu nánast allir sammála um það. Ég ætla að vona að hæstv. dómsmálaráðherra sé það líka.