148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:20]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Út af orðum hæstv. ráðherra og hv. þm. Birgir Ármannssonar er kannski ágætt að hafa í huga að vissulega hefur þetta mál í einhverri mynd legið fyrir í samráðsgáttinni um nokkurt skeið. Má þá reyndar spyrja sig: Af hverju var ekki hægt að mæla fyrir því fyrr hér í þinginu úr því að málið var að sögn meira og minna tilbúið í samráðsgáttinni áður en þingið fór til dæmis í hlé fyrir sveitarstjórnarkosningar?

En það má líka velta því fyrir sér að ráðuneytið tók sér röska tvo mánuði til að bregðast við athugasemdum í samráðsferlinu og ætlar þinginu röska viku til að ljúka því frá grunni; hafandi þó unnið frumvarpið, verið inni í efni þess og ætla þinginu nú að frumkynna sér málið, taka það til vinnslu í nefnd, kalla eftir umsögnum og vinna úr þeim athugasemdum sem þar koma fram á viku.

Ég held að ekki sé hægt að nota mikil gífuryrði í þessari umræðu. Ég hef ekki séð jafn mikla vanvirðingu við þingið og hér er á ferðinni, fádæma mikla. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)