148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er um að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga og mun ég fjalla um það með ýmsum hætti í ræðu minni seinna í dag. Það er ýmislegt í máli hæstv. dómsmálaráðherra sem ég verð að spyrja um og gera kannski athugasemdir við líka, af því að hæstv. dómsmálaráðherra lét að því liggja að hér hefðu þingmenn verið að gagnrýna slæleg vinnubrögð af hálfu ráðuneyta. Það er bara alrangt. Það kom hvergi nokkurs staðar fram að verið væri að gagnrýna starfsmenn ráðuneyta. Það verður ráðherra algjörlega að eiga fyrir sig og taka ein á móti þeirri gagnrýni.

Hér var auðvitað verið að gagnrýna það að hæstv. dómsmálaráðherra væri leggja fram heildarlög eins og hún orðar sjálf, heildarlög, breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þar er ekki við starfsmenn ráðuneyta að sakast. Hreint ekki. Þetta er algjörlega á ábyrgð hæstv. dómsmálaráðherra.

Hæstv. dómsmálaráðherra kemur hérna og kynnir þessi heildarlög, 147 blaðsíður, takk fyrir, með einhverju fimbulfambi um að þetta séu einhverjar breytingar og dæmi um svigrúm sem aðildarríki hafi til að gera breytingar og nefnir t.d. notkun á kennitölum og upplýsingar um látna einstaklinga. Á sama tíma á bls. 25 í þessu plaggi, þ.e. í byrjun greinargerðar, er verið að tala um umfang þeirra breytinga og sérreglna sem setja þarf á grundvelli reglugerðar. Það eru orðin sem eru í greinargerðinni með frumvarpinu sem hæstv. dómsmálaráðherra var að leggja fram. Þá hljóta þingmenn að verða að spyrja og það strax: Hverjar eru þessar breytingar, hæstv. dómsmálaráðherra? Við getum ekki verið að fá eitthvað um kannski (Forseti hringir.) einhverjar smá kennitölubreytingar og upplýsingar um látna einstaklinga. Það er (Forseti hringir.) algjört grundvallaratriði að ráðherra upplýsi frá A til Ö hverjar breytingarnar eru frá reglugerðinni sem þingmenn gátu kynnt sér.