148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur farið yfir ákveðin efnisatriði málsins. Mig langar að byrja á að fara fyrst nokkrum orðum um það sem ýmsir hafa viðrað, það eru möguleikarnir á að taka bara upp hluta regluverksins, sleppa þá eftirlitspartinum, eða hvort hægt væri og skynsamlegt að segja bara: Nei, við viljum þetta ekki.

Þessi almenna persónuverndarreglugerð byggir á tveimur meginstoðum. Annars vegar þeirri að koma á fót nýrri og betri réttarvitund fyrir einstaklinga varðandi meðferð persónuupplýsinga. Þetta er einsdæmi í heiminum í dag. Það er verið að færa valdið yfir upplýsingum til einstaklinganna sjálfra. Það eru þeir, samkvæmt þessu, sem ráða því hvort, hvenær og hvernig upplýsingar um þá eru nýttar. Þetta er bylting í réttarvernd einstaklinga.

Hins vegar er verið að samræma eftirlit til að tryggja að reglunum sé beitt á sama hátt hvar sem er á innri markaðnum og koma í veg fyrir flækjustig sem fylgir því að fyrirtæki þurfi að snúa sér til fleiri eftirlitsaðila. Þessar stoðir verða ekki svo auðveldlega skildar að. Það er allt að því óhugsandi að taka bara upp efnisreglurnar en neita að vera með í samræmdu eftirliti, þó svo að svigrúm til þess að útfæra einstaka ákvæði sé fyrir hendi eins og fram hefur komið í umræðum hér fyrr í dag og þar var vísað í ályktunina sjálfa.

Ef Ísland hafnar því að taka upp reglurnar hefur það gríðarleg áhrif á möguleika íslenskra fyrirtækja til að eiga viðskipti við önnur fyrirtæki í Evrópu enda er þá ekki hægt að byggja á að miðlun upplýsinga til Íslands sé örugg. Slík afstaða myndi ekki bara setja íslensk fyrirtæki í vanda heldur myndi það einnig varða Noreg og Liechtenstein. Það mætti því ætla að slík afstaða, hörð afstaða, myndi setja allt EES-samstarfið í uppnám og væri í raun og veru sambærilegt við það að við myndum hafna samkeppnisreglum EES-samningsins. Hann byggir á því að EFTA-ríkin tali einni röddu, sammælist um hvernig eigi að taka gerðir upp í samninginn. Það hefur verið þannig frá upphafi og er í raun og veru forsenda þess að tveggja stoða kerfið gangi yfir höfuð.

Þá langar mig að nefna aðeins álitaefni, einhver að minnsta kosti, sem tengjast þessu títtnefnda tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Hér á Alþingi síðustu vikur, jafnvel mánuði, hefur bæði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og hæstv. utanríkisráðherra orðið tíðrætt um nauðsyn þess að standa vörð um tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Við getum öll verið því sammála, tel ég. Nú erum við hins vegar að ræða þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra þar sem þess er farið á leit við Alþingi að aflétta svonefndum stjórnskipulegum fyrirvörum vegna fyrirhugaðrar upptöku á almennu persónuverndarreglugerðinni í EES-samninginn. Hér bregður svo við að í drögum að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felst sú fyrirætlan samningsaðila þessa samnings að bregða verulega frá tveggja stoða kerfinu. Það má eiginlega segja að hér sé um að ræða nokkurs konar einnar stoðar lausn.

Þrátt fyrir að ætla mætti, eins og rætt hefur verið hér á Alþingi fyrr í dag, miðað við orðræðu ráðherranna tveggja, að stjórnvöld legðu höfuðáherslu á að þetta mál væri rætt ofan í kjölinn, öllum steinum velt við, öll sjónarhorn viðruð, þá er þessi fljótaskrift höfð á málinu án þess að raunverulega sé útskýrt af hverju málið er ekki löngu komið fram á þingi.

Þegar sagt er að hér sé í raun um einnar stoðar lausn að ræða er meðal annars verið að vísa til þess að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér að Evrópska persónuverndarráðinu eða -nefndinni er falið vald til að taka ákvarðanir ef deila kemur upp á milli tveggja eða fleiri innlendra eftirlitsstofnana. Þær ákvarðanir eru bindandi. Þannig getur sú staða komið upp að Evrópska persónuverndarráðið tekur bindandi ákvörðun gagnvart Persónuvernd hér á landi. Þetta fyrirkomulag er augljóslega á skjön við hefðbundna túlkun á tveggja stoða kerfinu enda er þar almennt gert ráð fyrir að það sé Eftirlitsstofnun EFTA sem hafi valdheimildir gagnvart stjórnvöldum í EFTA-ríkjum en ekki stofnanir Evrópusambandsins.

Á móti kemur síðan að þessi tilhögun er praktísk og skynsamleg. Þegar haft er í huga að einn megintilgangur almennu persónuverndarreglugerðarinnar, fyrir utan að mæla fyrir um gríðarlegar réttarbætur fyrir einstaklinga, er að tryggja að eftirlit með háttsemi fyrirtækja sé bæði samræmt og hnökralaust ættu fyrirtæki að geta snúið sér til einnar eftirlitsstofnunar en ekki þurfa að búa við það flækjustig að eiga samskipti við fleira en eina stofnun ef viðskipti ná yfir landamæri.

Það liggur líka fyrir að telji einstaklingar eða fyrirtæki sig eiga sérstaka lögvarða hagsmuni vegna ákvörðunar Evrópska persónuverndarráðsins er hægt að óska eftir endurskoðun dómstóls Evrópusambandsins á ákvörðuninni. Rétturinn til að bera slík mál fyrir dómstól ESB er hinn sami fyrir einstaklinga og lögaðila í EFTA-ríki og í ríkjum ESB.

Þá felur niðurstaða sameiginlegu EES-nefndarinnar í sér möguleika fyrir EFTA-ríki að beita ákvörðunum framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins um örugg þriðju ríki, ákvörðunum sem veita heimild til að miðla upplýsingum til ríkja utan Evrópusambandsins, áður en slíkar ákvarðanir eru teknar upp í EES-samninginn. Með öðrum orðum: Það þarf ekki að bíða eftir því að ákvörðun verði hluti EES-samningsins til að henni verði beitt hér á landi.

EFTA-ríkjunum ber hins vegar ekki eingöngu að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA heldur einnig framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins hvort þau hyggist reiða sig á slíkar ákvarðanir strax. Þar með er framkvæmdarstjórnin komin með óbeint eftirlit með framkvæmd í EFTA-ríkjunum. Aftur gengur þetta nokkuð á skjön við tveggja stoða kerfið sem gengur út frá því að Eftirlitsstofnun EFTA fari með slíkt eftirlit.

Þetta fyrirkomulag þýðir að löggjöf Evrópusambandsins er beitt áður en hún verður hluti af Evrópska efnahagssamningnum. Þannig getur einstaklingur eða lögaðili ekki borið fyrir sig réttindi sín samkvæmt EES-samningnum í slíkum tilfellum og óljóst er hvaða aðgengi hann hefur að endurskoðun dómstóla, ef eitthvert. Hér er mikilvægt að hafa í huga að ESB-borgarar geta óskað endurskoðunar dómstóls Evrópusambandsins á ákvörðunum framkvæmdarstjórnarinnar. Sá dómstóll getur ógilt slíkar ákvarðanir ef þær teljast brjóta í bága við ESB-réttinn.

Þetta fyrirkomulag sem við ræðum hér í dag, herra forseti, er þó ekki einsdæmi. EFTA-ríkin hafa áður vikið frá tveggja stoða kerfinu þótt það hafi kannski ekki verið gert með jafn afgerandi hætti og nú liggur fyrir. Árið 2004 var til að mynda tekið inn í EES-samninginn regluverk um lyf sem fól í sér að framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins tæki ákvörðun um veitingu markaðsleyfa að fenginni umsögn Evrópsku lyfjastofnunarinnar. Það mætti færa fyrir því rök að slíkar ákvarðanir heyrðu undir eftirlit og framkvæmdarvald framkvæmdarstjórnarinnar og því hefði verið eðlilegt að fela Eftirlitsstofnun EFTA að taka sams konar ákvarðanir fyrir EFTA-ríkin. Sú leið sem var valin í þessu tilfelli var að EFTA-ríkin samþykktu að þau myndu taka beint upp ákvörðun framkvæmdarstjórnarinnar um markaðsleyfi lyfja innan 30 daga. Sá böggull fylgdi skammrifi að með þessu móti var girt fyrir að bera mætti ákvarðanirnar undir EFTA-dómstólinn.

Í raun má segja að lausnin um evrópsku fjármálaeftirlitin og Flugöryggisstofnun Evrópu sé einnig því marki brennd að möguleikar einstaklinga og lögaðila til að láta reyna á ákvarðanir fyrir dómi séu takmarkaðir. Í tilviki hinna evrópsku fjármálaeftirlita er það reyndar Eftirlitsstofnun EFTA sem formlega tekur ákvörðun en sú ákvörðun skal byggjast á drögum sem hin evrópska stofnun lætur henni í té. Því er efnislegt svigrúm til mats takmarkað, sem leiðir til þess að endurskoðun EFTA-dómstólsins er að sama marki takmörkuð.

Staðreyndin er sú að Evrópurétturinn er í sífelldri þróun. Það sama má segja um EES-samninginn, enda byggir hann beinlínis á þeirri forsendu að EFTA-ríkin taki upp löggjöf Evrópusambandsins. Þessi þróun Evrópuréttarins er líka jákvæð. Það er verið að fela sjálfstæðum fagstofnunum vald til að taka ákvarðanir óháð pólitískum duttlungum. Einnig er verið að samræma beitingu og túlkun reglna til að skapa fyrirtækjum í raun sömu samkeppnisskilyrði og á innri markaðnum. Að sama skapi hlýtur að vera jákvætt fyrir þróun innri markaðarins að setja í ríkari mæli á fót kerfi þar sem aðilar þurfa bara að snúa sér til eins aðila til að fá lausn sinna mála. Í raun byggja samkeppnisreglur EES-samningsins á þessu sjónarmiði frá upphafi samningsins. Þær tryggja til dæmis að það liggur skýrt fyrir hvort eigi að snúa sér til framkvæmdarstjórnar ESB eða Eftirlitsstofnunar EFTA.

Við heildstætt mat er það líka svo að það er íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum mun hagfelldara að vera hluti af þessu samevrópska kerfi enda er það forsenda þess að unnt sé að taka þátt í innri markaðnum. Hér verður ekki bæði sleppt og haldið. Það væri líka sérkennilegt að gera þá kröfu til Evrópusambandsins að það hætti að þróa sína löggjöf og finna hagfelldar lausnir fyrir innri markaðinn vegna þess að þær henta ekki tveggja stoða kerfi EES-samningsins.

En þessi þróun réttarins og framkvæmdar á innri markaðnum hlýtur að verða til þess að það þurfi reglulega að leggja mat á hvort hagsmunir íslenskra fyrirtækja og einstaklinga væru ekki betur tryggðir með fullri aðild að Evrópusambandinu þar sem aðkoma að ákvarðanatöku væri tryggð og sams konar réttarvernd að því er varðar endurskoðun dómstóla og borgarar Evrópusambandsins njóta. Ég varpa þessu fram hér í allri vinsemd af þessu tilefni sem við stöndum hér.