148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið. Ég skil hv. þingmann þannig að hann sé að spyrja um hver staðan sé ef þetta verður ekki samþykkt hér. (Gripið fram í.)— Áður en það er samþykkt hér en eftir að dagsetningin rennur út, sem gerist ekki fyrr en í byrjun júlí. Akkúrat.

Eins og ég skil þetta skapar það gríðarlega réttaróvissu. Það er erfitt fyrir fyrirtæki sem starfa innan markaðarins og hafa tekið þetta upp að treysta á þær upplýsingar sem koma héðan. Ég held að raunverulega sé gengið svo langt að þau geti ekki gengið út frá því að þær upplýsingar séu réttar. Ergo: Mega ekki nýta sér þær eða ganga út frá því að þær falli undir þau skilyrði sem fyrir eru. Þannig að þetta mun fyrst og fremst koma íslenskum fyrirtækjum illa.

Hvað varðar einstaklinga og réttarvernd þá lýtur sú réttarvernd sem er í boði fyrir einstaklinga fyrst og fremst að aðstöðunni hér á landi, eins og ég skil þetta, hefur minni áhrif á upplýsingar á milli landa. Ég verð hreinlega að viðurkenna að þetta er hluti af því sem ég er ekki viss um. Ég hefði þegið með þökkum nánari umfjöllun um þau mál hér inni og síðan umsagnir þeirra aðila sem fá málið sent til sín.