148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er á nákvæmlega sama stað. Þess vegna fannst mér ræða hv. þingmanns svo góð, þessi umfjöllun um að þetta væri ekki inni í tveggja stoða kerfinu, að réttarfyrirkomulagið væri aðeins öðruvísi. Maður hefur alveg séð þessa umræðu á samfélagsmiðlum og annars staðar. Ef við geymum að samþykkja þetta frumvarp hefur GDBR samt áhrif? Ég fæ misvísandi skilaboð. Fólk sem er í því hlutverki að hjálpa til við innleiðingu á GDBR-löggjöfinni segir að íslensk fyrirtæki geti verið skaðabótaskyld þó að við séum ekki búin að samþykkja þetta hér. En ég sit uppi með það að um er að ræða lögfræðilegar skýringar sem maður heyrir frá einum stað og svo annað frá öðrum stað. Það er langt frá því að vera í besta lagi að það sé svo óljóst.

Þess vegna hjálpar það til dæmis alls ekki að frumvarpið komi svona seint fram. Við getum ekki lagst nógu vel yfir umsagnirnar, ekki spurt þá sérfræðinga sem koma til með að hjálpa okkur í innleiðingunni og í yfirferð um málið ítarlega út í þetta. Eins og komið hefur fram er þetta risastórt frumvarp. Samverkandi áhrif eru gríðarlega mikil. Það eru breytingar á 42 öðrum lögum í þessu frumvarpi. Það er undanþáguákvæði varðandi heimildir stjórnvalda til upplýsingaöflunar til bráðabirgða. Áfram gilda einhverjar reglugerðir úr gömlu persónuverndarlögunum þó að þau falli úr gildi. Það er ekkert smáræði sem þarf að fara yfir í þessu.