148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég staldraði við atriði sem hv. þingmaður nefndi varðandi breytingar út frá reglugerðinni, það væri gott að fá lista yfir þær. Það er annað sem mér dettur í hug að væri kannski hjálplegt að fá líka. Gömlu lögin falla á brott. Er eitthvað sem fellur milli stafs og bryggju þar, eitthvað í núverandi persónuverndarlögum sem gleymist einhverra hluta vegna og yfirfærist ekki í þessi nýju? Smáábending hvað það varðar væri vel þegin.

Í fjármálaáætlun, af því hv. þingmaður nefndi einmitt Persónuvernd, hvernig þarf að stækka hana, er það ekkert mjög gagnsætt hvernig verið er að fjármagna þetta. Ekki er nóg með að fjórfalda þurfi starfsmannafjölda og stækka Persónuvernd, heldur lækka framlög til málaflokksins, réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála, úr 14,1 milljarði niður í 13,5. Ekki er sjáanlegt að verið sé að stækka Persónuvernd að því marki sem ætti að vera fyrirsjáanlegt miðað löggjöfina. Við höfum fengið að vita að löggjöfin er mjög fyrirsjáanleg og hefði átt að vera gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun. Hér eru einungis einhverjir mælikvarðar um fræðslu vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar. Ég hef heyrt eitthvað um að styrkja eigi Persónuvernd en hef ekki hugmynd um hversu mikið. Framlög til málaflokksins virðast ekki segja mikið. Ég var að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður hefði kannski fundið eitthvað sem ég fann ekki.