148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:46]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja á sjö árum var 342 milljarðar kr. Bara á árinu 2016 var hagnaðurinn 55 milljarðar kr. sem er hærri upphæð en öll veiðileyfagjöld til ríkisins samanlagt frá árinu 2011. Hagnaður eins árs var hærri en veiðileyfagjöld sjö ára samanlagt. Arðurinn til útgerðarmanna frá 2010 var 66 milljarðar kr. sem aftur er talsvert hærri upphæð en öll veiðileyfagjöldin. Takið eftir að þessi arður og hagnaður er vegna nýtingar á auðlind sem þjóðin á samkvæmt lögum en ekki fáein fyrirtæki eða fjölskyldur. Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja jókst frá hruni um 300 milljarða kr. sem er 50% meira en það sem við setjum í allt heilbrigðiskerfið. Þess vegna er það ótrúleg forgangsröðun að Vinstri græn ætli hér korteri fyrir þinglok að lækka veiðileyfagjöldin á sama tíma og sá flokkur fellir tillögur í þessum þingsal um að hér eigi að setja viðbótarkrónu í barnabætur eða vaxtabætur. (Forseti hringir.) Þetta er til skammar, herra forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)