148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við höfum unnið eftir þeirri reglu á þessu þingi og á fleiri þingum á undan að ríkisstjórnarmál eða stjórnarmál ganga fyrir á dagskránni. Næsta þar á eftir eru mál sem fullkomið samkomulag er um í nefndum. Nefndin býr þannig um málið að það geti farið til 1. umr. Síðan höfum við gert samkomulag um þingmannamál þannig að hver flokkur hefur fengið forgangsmál, þrjú forgangsmál, en síðan er samkomulagið að þingmannamál fari inn á dagskrá eftir númeraröð.

Herra forseti kynnir hér alveg splunkunýja reglu sem er sú að meiri hluti nefndar geti komið máli á dagskrá þingsins fram fyrir allt annað. Ég mótmæli því. Með þessu, með því að kynna nýja reglu þegar þrír daga eru eftir (Forseti hringir.) af þinginu, er forseti búinn að setja allt þinghald í uppnám.