148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:54]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er greinilegt að forsvarsmenn þessarar ríkisstjórnar kváðu einhverjar öfugmælavísur þegar þeir töluðu um að hefja þingið til vegs og virðingar og efla Alþingi, sem hluta af stefnumarkmiðum sínum. Dagskrá þingsins er í algjöru reiðileysi, virðingarleysið gagnvart þinginu hefur sjaldan verið meira. Hér er verið að troða inn málum á síðustu stundu. Þegar við ættum að vera að vinna að samkomulagi um hvernig ljúka eigi þingi á tilsettum tíma er greinilega unnið út frá því að þinglok séu fullkomlega óljós. Mér skilst að búið sé að greina starfsmönnum þingsins frá því að við munum verða hér eitthvað lengur, jafnvel talsvert lengur, án þess að nokkur umræða hafi átt sér stað um það við þingmenn sjálfa.

Þetta tiltekna mál teldist ekki einu sinni þingtækt ef einhver gæðamælikvarði væri á vinnslu mála eða undirbúning þeirra fyrir þingið, svo illa er það unnið. Í greinargerðinni stendur ekki steinn yfir steini. Það er líka sérstakt að horfa upp á að hér ætlar ríkisstjórnin að lækka veiðigjöld umtalsvert en hefur ekki einu sinni kjark til að flytja málið sjálf, hefur ekki einu sinni kjark til að sjávarútvegsráðherra komi þá sjálfur með það mál sem ríkisstjórnarmál. (Forseti hringir.) Á sama tíma, eins og bent hefur verið á, reyndist ekki svigrúm til að uppfæra að verðlagi viðmiðunarfjárhæðir í barnabótum og vaxtabótum. Hér á fyrsta forgangsmál þessarar ríkisstjórnar að vera að lækka veiðigjöld (Forseti hringir.) út af slæmri afkomu sjávarútvegsfyrirtækja, (Forseti hringir.) sem þó er umtalsvert betri en nokkurra annarra fyrirtækja í landinu.