148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Það er ekki bara 11. málið á dagskránni sem situr örlítið í okkur, það er líka 9. málið. Hvers vegna er það mál tekið út úr nefnd og sett á dagskrá meðan önnur mál eru tilbúin í nefndum? Hvers vegna er ekki staðið við samkomulagið sem ég nefndi hér áður? Ég ætla að leyfa mér að spyrja forseta hvort forseti sé til í að beita sér fyrir því að þau mál sem samið var um fyrir þremur vikum að fengju fram að ganga fái að komast út úr nefndum og á dagskrá á undan gæluverkefnum stjórnarliðanna. Ég spyr, virðulegi forseti, hvort ekki sé kominn tími til að forseti tali skýrt við okkur, stjórnarandstöðuna, og fullvissi okkur um að hann muni beita sér fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir muni líka virða samninga, það sé ekki bara stjórnarandstaðan sem þurfi að gera slíkt.

Það ástand sem er uppi í dag er í boði forseta Alþingis, er í boði þess sem stýrir hér málum. Það er ekki í boði stjórnarandstöðunnar, það er í boði forseta Alþingis að hleypa hér öllu upp.