148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:05]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð og kynnt var gert mikið úr því að þetta væri sáttastjórn, stjórn hinna breiðu sátta þar sem flokkar yst til vinstri og yst til hægri sameinuðust og loksins lægði þá storma sem geisað hefðu hér um árabil í kjölfar hrunsins.

Sú sátt birtist okkur hér í dag m.a. í þessum vinnubrögðum og hvernig þessari sátt verður háttað. Sú sátt birtist okkur í því að mál sem samkomulag hefur orðið um að fái afgreiðslu eru sett aftar í röðina, en tekið er fram fyrir þau mál sem snúa að mjög ríkum fjárhagslegum hagsmunum voldugra aðila í þessu landi.

Þessi ríkisstjórn er ekki sáttastjórn. Þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) er mynduð um hagsmuni. Þessi ríkisstjórn er til þess að gæta mikilvægra hagsmuna. (Forseti hringir.) Og það erum við að upplifa hér í dag.