148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:22]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að 11. dagskrármálið sé komið á dagskrá og vonandi komumst við sem fyrst í efnislega umræða um það. Ég tel það mikilvægt og mér heyrist vera mikill vilji hjá þingheimi til að fá að ræða þetta efnislega. (Gripið fram í: Nei.) Það er nefnilega mikið ákall frá byggðum landsins að fá að lifa áfram. Þetta er stórt mál í því og ég held að við þurfum að ræða það til þess að stoppa hér samþjöppunina. Þetta ákall sem var talað um — hvernig eigum við að ná að verða við því, í þeim fjölmörgu liðum sem við höfum farið hér yfir, ef atvinnulífið okkar og grunnatvinnuvegirnir geta ekki starfað af því að það er verið að þrengja að þeim? Við verðum ekki við því ákalli sem kemur hér nema að ræða þetta mál efnislega og klára það. Ég veit ekki betur en að það sé helsta baráttumál Viðreisnar, í núverandi meirihlutaviðræðum í höfuðborginni, (Gripið fram í.) að auka samkeppnishæfni fyrirtækja. [Hlátur í þingsal.] Þetta skiptir miklu máli í því þannig að ég hlakka til að fá að ræða þetta mál efnislega. (Gripið fram í.)