148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

Hvalárvirkjun.

[11:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn. Ég vil kannski fyrst geta þess að gerðar hafa verið rannsóknir á Íslandi á áhrifum hugmynda um virkjanir í litlum samfélögum. Til er doktorsritgerð um Þjórsárverin í því sambandi. Það er mjög áhugavert að kynna sér það vegna þess að það sem virðist gerast þegar svona hugmyndir koma inn í samfélög, sérstaklega ef um er að ræða lítil samfélög, er að þau valda klofningi meðal íbúanna. Ég held að það sé það sem við höfum séð núna í kringum sveitarstjórnarkosningarnar, það er þessi klofningur sem verður í þessum litlu sveitarfélögum.

Af því að hv. þingmaður nefnir hvort eitthvað sé siðferðislega rétt þá vildi ég nefna þetta sem dæmi um áhrif sem verða af svona. Þetta þyrfti ekki endilega að vera virkjun, þetta gæti allt eins verið eitthvað annað. En mér finnst það mjög mikið umhugsunarefni að skoða þennan samfélagslega þátt. Þegar verið var að vinna að 3. áfanga rammaáætlunar, þá var farið svolítið í þetta; skipaður faghópur sem hafði með að gera samfélagsleg og efnahagsleg áhrif. Þar var byrjað á þessari vinnu — mig minnir að farið hafi verið inn í þrjú samfélög þar sem virkjunarhugmyndir í þeim áfanga voru fyrirhugaðar — til þess að reyna að draga fram hver viðhorf fólksins væru og hvort nota mætti það til að varpa skýrara ljósi á hvort ráðast ætti í virkjanir yfir höfuð eða ekki.

Þessi vinna er eitthvað sem ég held að þurfi að þróa áfram til þess að geta svarað betur þessum spurningum um það hvaða áhrif þetta hefur á samfélögin.