148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

samkomulag um lok þingstarfa.

[12:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir orð hæstv. forseta um að þingstörfin hafi gengið vel, því að við erum stödd hér rétt fyrir þinglok, a.m.k. ef marka má starfsáætlun sem þingmönnum var afhent, og það er fjöldi mála sem eru bara á fyrstu metrunum. Má þar t.d. nefna gríðarstórt mál, heildarlög sem dreift var og voru rædd hér í 1. umr. í vikunni um persónuvernd, en líka fjármálaáætlun, sem kom of seint inn í þingið miðað við lögbundna dagsetningu, byggðaáætlun, landshlutaáætlun. Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun voru tveir stjórnarliðar mættir — tveir þingmenn stjórnarinnar. Svo erum við með kosningaaldursmálið sem er í miðri 3. umr. Þetta er eiginlega alveg ótrúlegt.

Ég verð að taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Það á auðvitað að gera (Forseti hringir.) hlé á þessum fundi núna, ekki fara í sérstaka umræðu um SÁÁ, (Forseti hringir.) heldur halda fund með þingflokksformönnum og ákveða framhaldið í dag.