148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[12:39]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að taka vel í beiðni mína um þessa sérstöku umræðu. SÁÁ, Samtök áhugafólks um áfengismál, eru orðin yfir 40 ára félagsskapur hér á landi. Þau voru stofnuð af fólki sem brann fyrir því að koma á fót meðferðarúrræði sem hjálpaði alkóhólistum sem vildu komast undan oki þess alvarlega sjúkdóms sem hrjáð hefur manninn um ómunatíð. Allir þeir sem að þessu stóðu þekktu sjúkdóminn annaðhvort á eigin skinni eða hjá sínum nánustu. Fyrirmyndin er að mestu sótt til Bandaríkjanna og þar urðu líka AA-samtökin til árið 1935. Strax á fyrstu árum SÁÁ var árangurinn gríðarlega góður sem vakti ekki bara athygli hér á landi heldur víða út fyrir landsteinana.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og þróun neyslu- og vímuefna tekið miklum breytingum, en grundvallarmálið er það sama, alkóhólismi, og enginn getur hætt neyslu sinni nema hann vilji það sjálfur. Vegna skorts á fjárframlögum hafa SÁÁ því hugsanlega ekki fengið tækifæri til að bregðast við þessum breyttu tímum. SÁÁ eru nefnilega ekki einkaaðili í heilbrigðisrekstri heldur grasrótarsamtök sem urðu að almannafélagi.

Áfengis- og vímuefnafíkn er sjúkdómur sem auðvelt er að greina. Hann verður til vegna endurtekinnar neyslu áfengis og vímuefna þar sem flókið samspil erfða og umhverfisþátta veldur því að sjúklegar breytingar geta orðið á heila. Í dag eru um 700 manns á biðlista eftir innlögn á sjúkrahúsið Vog. Vaxandi eftirspurn og þörf er fyrir þjónustuna samhliða hægfara niðurskurði á framlögum ríkisins. Hefur það orðið til þess að biðlistinn eftir meðferð er í sögulegu hámarki og að óbreyttu munu á næstu tíu árum sex til sjö einstaklingar sem í dag eru á aldrinum 6–25 ára koma í meðferð til SÁÁ í fyrsta sinn. Á sama tíma mun svipaður fjöldi einstaklinga sem þegar hafa greindan fíknisjúkdóm þurfa á endurinnlögn í afeitrun að halda.

Tækifæri sem við höfum til sóknar glatast á meðan sértekjur og fjáraflanir SÁÁ renna að mestu leyti í niðurgreiðslur á lögbundinni heilbrigðisþjónustu. Fjáraflanir SÁÁ ætti fremur að nýta til uppbyggingar og nýsköpunar og þjónustu sem skortir í samfélaginu. Til að bregðast við breyttum aðstæðum er sú staðreynd að biðlistar á sjúkrahúsið Vog hafa aukist um 90% á síðustu fimm árum. Þetta er grafalvarlegt mál, en það sem slær mann illa eru viðbrögð ráðherra sem talar um að biðlistar á Vog séu ekki faglegir. Vegna þess að læknar eða aðrir faglegir aðilar hafa ekki vísað fólki á að sækja um innlögn gefi þessi langa biðröð ekki rétta mynd.

Það sækir enginn um inn á Vog að gamni sínu. Fólk er að deyja á meðan það bíður eftir innlögn, jafnvel þó að enginn læknir hafi vísað fólki á stofnunina. Einnig vil ég fá að gagnrýna þann útreikning ráðherra að tala um hækkanir í krónum talið síðustu fimm ár. Þar er ekki reiknað með verðlagi en séu verðlagsbreytingar teknar með í reikninginn sést að kostnaður við reksturinn er mikill.

Kostnaður við rekstur sjúkrahússins Vogs er 925 milljónir en ríkisframlag er 694 milljónir. Kostnaður vegna meðferðarstöðvarinnar á Vík er 327 milljónir en ríkisframlag 219 milljónir. Kostnaður vegna göngudeilda SÁÁ er 178 milljónir en ríkisframlag er 0. Launakostnaður við starfsemina er um 70% af heildarkostnaði. Meðferðarstofnanir svelta og það kemur harðast niður á okkar veikustu bræðrum og systrum.

Það þarf ekkert að finna upp hjólið í þessum málum, það hefur oft verið reynt undanfarin ár og oftast endað sorglega. Sé horft til verðlagsbreytingar hafa fjárframlög til SÁÁ lækkað síðustu fimm ár, biðlistinn lengist, ástandið versnar og við því þarf að bregðast. Í ljósi þess að biðlistar á sjúkrahúsið Vog hafa lengst úr hófi fram og eru í sögulegu hámarki spyr ég því hæstv. heilbrigðisráðherra:

Hvernig ætlar ráðherrann að bregðast við þeim vanda svo tryggt sé að þeir sem eftir hjálpinni kalla fái aðstoð?

Hvernig sér ráðherrann fyrir sér að auka forvarnir á vegum SÁÁ?

Áfengis- og vímuefnameðferð ungs fólk hefur verið í uppnámi. Hvernig hyggst ráðherrann bregðast við því?

Rekstur áfangaheimila á vegum SÁÁ og fleiri aðila líður mikinn fjárskort. Hvað mun hæstv. heilbrigðisráðherra gera til að bregðast við því?