148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[12:49]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er mikilvæg umræða um alvarlegt málefni sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson hefur frumkvæði að, málefni sem hver fjölskylda í landinu þekkir á einn eða annan hátt. Þeir sem orðnir eru tvævetra eða liðlega það og muna nokkra áratugi hafa fylgst með þeim viðhorfsbreytingum sem orðið hafa gagnvart áfengi og vímuefnum og sjúkdómum sem gjarnan eru fylgifiskar. Á mínum æskudögum var það hald manna að það væri nánast einhvers konar óumflýjanlegt hlutskipti eða örlög viðkomandi að verða ofdrykkjumenn, fara í ræsið, verða rónar og hugsanlega þurfa að dúsa ævilangt í fjötrum vímunnar, fá á sig stimpil samfélagsins sem misheppnaðir einstaklingar, gölluð eintök. Fátt gæti bjargað nema kannski guðstrúin.

Að frelsast frá áfengisbölinu lifir, sem dæmi, enn í málinu. Mikið vatn hefur runnið til sjávar og viðhorfin eru gjörbreytt. Íslendingar hafa náð góðum árangri í forvörnum sem mestu skiptir og í áfengis- og vímuefnameðferð og sá skilningur er nú ríkjandi að enginn sé í raun óhultur, þessi ógnvaldur fari ekki í manngreinarálit og dýrmætt sé að reyna til þrautar, að halda öllum á dekki, að halda fjölskyldum saman og styðja einstaklinga til eðlilegrar samfélagsþátttöku með faglegri og markvissri nálgun.

Forystusveitir í áfengis- og vímuefnameðferð hafa frá upphafi verið frjáls félagasamtök, þriðji geirinn sem þó er lítt skilgreindur og vanmetinn þrátt fyrir sinn drjúga þátt í velferðar- og samfélagsþjónustu.

SÁÁ bera höfuð og herðar yfir aðra á þessu sviði en nú ber svo við að enn sverfur að starfsemi samtakanna. Auk viðvarandi rekstrarvanda til að fást við krefjandi verkefni er komin til framkvæmda reglugerð um opinber innkaup og útboð á Evrópska efnahagssvæðinu sem kann að skapa enn frekara óöryggi og óstöðugleika. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hún hyggist með tilkomu þessarar reglugerðar tryggja áfram fyrirsjáanleika, festu og langtímasýn í starfsemi SÁÁ sem og annarra stofnana sem tilheyra hinum svokallaða þriðja geira. Ég vonast eftir innihaldsríku og góðu svari.