148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[13:01]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra sömuleiðis. Það er umhugsunarvert að við stöndum hér í sömu aðstæðum og voru þegar málshefjandi ræddi biðlista við hæstv. ráðherra 5. mars sl. Og við erum engu nær. Staðan hefur ef eitthvað er versnað, biðlistarnir lengjast enn og staðan er enn grafalvarleg. Ég velti fyrir mér hvort það sé m.a. vegna þess að biðlistarnir verða ekki til á nógu faglegum grunni, eins og hæstv. ráðherra nefndi í umræðunni þá.

Ég velti fyrir mér hvort rétta leiðin sé sú að fólk fari aðeins í gegnum bráðamóttöku. Er það leiðin sem passar inn í boxið? Vissulega er oft um bráðavanda að ræða og þaðan er þá hægt að senda fólk áfram í viðunandi úrræði, eins og það kallast.

Ég tel það mjög skýrt að sú þjónusta sem SÁÁ veitir sé án alls vafa byggð á faglegum grunni. Hún uppfyllir faglegar kröfur og mér sýnist árangurinn metinn rétt eins og í annarri heilbrigðisþjónustu. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort það sé hin rétta, opinbera leið að fara í gegnum bráðamóttöku. Velta þarf fyrir sér hvað gengið hafi á áður en einstaklingur óskar eftir hjálp, hvort sem hún er faglega metin eður ei. Hvenær verðum við vör við þessar raunverulegu aðgerðir? Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera í þessari stöðu?