148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[13:15]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Staðan er það grafalvarleg í rekstri sjúkrahússins Vogs í sumar og starfsemi SÁÁ að þeir eru að tilkynna sumarlokanir. Þeir eiga glæsilega meðferðarstöð uppi á Vík, nýendurgerða og stækkaða, getur tekið á móti fleiri, getur hjálpað fleirum, en henni á að loka núna 23. júní til 6. ágúst. Hvað deyja margir á meðan þeir bíða eftir því að komast þangað að? Göngudeildinni Von í Efstaleiti 7 í Reykjavík verður lokað frá 9. júlí til 17. ágúst. Göngudeildin Hofsbót 4, Akureyri, hún lokar frá 9. júlí til 20. júlí, 6. ágúst til 17. ágúst, 3. september til 7. september.

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega orðlaus að þetta skuli geta verið að gerast á okkar vakt. Sjúkdómur fíknar einkennist af stjórnleysi og er án efa hættulegasti sjúkdómur ungs fólks á Íslandi í dag. Sú staðreynd blasir við okkur í endurteknum hörmungarfréttum af ótímabærum dauða fjölda vímuefnasjúklinga. Er ekki kominn tími til að tengja, virðulegi forseti, og koma til móts við fólkið okkar og hjálpa því þegar það þarf á okkur að halda?

Við sjáum líka, alveg eins og kom fram í framsögu hæstv. formanns fjárlaganefndar, að staðreyndin er sú að það bráðvantar fjármagn til þess að geta fylgt eftir því góða starfi sem þarna fer fram og þeirri lækningu og hjálp sem fólkið okkar þarf á að halda.

Ég segi: Hvernig væri að sleppa því að lækka veiðigjöldin svona mikið og hjálpa fíklunum okkar?