148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[13:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Allir geta lent í því að glíma við fíknisjúkdóm, líka fangar. Mögulega ekki síst fangar, en þjónustan stendur þeim ekki til boða. Stjórnendur SÁÁ eru meðvitaðir um nauðsyn þess að fangar fái meðferð við fíknisjúkdómi eins og aðra heilbrigðisþjónustu og vilja að sögn gjarnan koma að slíkri vinnu. Það sem upp á vantar er samningur um verklag, faglegt mat og áætlanir sem uppfylla skilmerkilega lögin, kröfulýsingu eftirlitsaðila til að hægt sé að veita föngum þessa fíknimeðferð.

Með þessu vil ég alls ekki beina athygli frá biðlistunum á Vogi og áfengis- og vímuefnameðferð ungs fólks og þeirri staðreynd að sú meðferð er í uppnámi. Staðan er sú að það er viðvarandi skortur í öllu heilbrigðiskerfinu fyrir fólk með fíknisjúkdóma. Allt utanumhald og þjónusta við þessa sjúklinga af hálfu SÁÁ er eins og staðan er núna töluvert umfram það sem ríkið greiðir. Það er enginn samningur í gildi um göngudeildarþjónustuna. Þjónustusamningur um eftirmeðferð á Vík á Kjalarnesi rann út í desember árið 2011 og hefur ekki verið endurnýjaður síðan. Ríkisframlög til meðferðarsviðs SÁÁ hafa lækkað frá 2009 en rekstrarkostnaðurinn hefur staðið í stað og við erum vonandi öll meðvituð um að eftirspurnin er ekki að minnka. Þetta veldur því að SÁÁ með sína mikilvægu þjónustu, þá einu sem er veitt á landinu, er rekin með halla á hverju einasta ári og rekstrargrundvöllur samtakanna óöruggur, eins og dæmin sýna.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki farið leynt með þá afstöðu sína að heilbrigðisþjónusta eigi í auknum mæli að vera í höndum hins opinbera. Þá er það lágmark að hið opinbera hafi burði og áhuga á að sinna þjónustunni. Innan SÁÁ er sérfræðiþekking, þar er reynslan og þar er aðbúnaður sem finnst ekki annars staðar á landinu. Það þarf einfaldlega að hlúa að þessu fyrir Jón í Hlíðahverfi, fyrir unga fólkið okkar, fyrir fanga og alla sem þurfa á þessari þjónustu að halda.