148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[13:19]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu og þakka ráðherranum enn og aftur fyrir að vera hér viðstaddur. Það er búið að vera fróðlegt að hlusta á þingmenn tala um meðferðarvanda og biðlistana á Vogi. Mér fannst í eitt augnablik ég vera kominn á AA-fund þegar hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé steig í pontu vegna þess að ég er nefnilega kallaður Siggi Palli og ég er alkóhólisti. Ég hef verið í AA-samtökunum í 24 ár og ég hlaut þá guðs náð að komast út úr áfengisfíkn með hjálp SÁÁ-samtakanna svo það sé bara sagt hér fyrir framan alþjóð. Ég er mjög stoltur af því að geta sagt það.

Ég var nefnilega stundum illa til reika fyrir framan sjónvarpið fyrir margt löngu að horfa á alþingisrásina og öfundaði þingmenn af því hvað þeir voru beinir í baki og töluðu kirfilega til þjóðarinnar og þingsalarins og hugsaði: Mikið væri gaman að geta verið svona hnarreistur eins og þessir þingmenn. Svo nokkrum árum seinna er ég staddur hér, talandi úr pontu og er nokkuð beinn í baki. Það er því að þakka að ég fékk hjálp hjá SÁÁ, hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég trúi því og treysti að þessi dagskrárliður geri það gagn sem ég ætlast til. Margt hefur komið fram og margt sem ég hefði viljað ræða miklu betur. Hv. þm. Páll Magnússon kom inn á díl, að það væri góður díll og ódýrt að liggja inni á Vogi. Það er nefnilega þjóðhagslega hagkvæmt að fólk fái hjálp og komist til starfa aftur en sé ekki á framfæri hins opinbera, annaðhvort í ræsinu eða inni á stofnunum. Takk fyrir þessa umræðu.