148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[14:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Við fórum hér til fundar við forseta, þingflokksformenn, fyrir nokkru; hálfeitt, korter í eitt, eitthvað svoleiðis. Við bárum þá von í brjósti að á þeim fundi myndi eitthvað gerast, eitthvað skýrast. Ég var í það minnsta að vona að forseti segði að hann hygðist beita sér fyrir því að við það samkomulag sem gert var fyrir þremur til fjórum vikum yrði staðið. Nei, ekki bofs. Ekki kom eitt orð frá forseta varðandi það. Ekki orð um að forseti hygðist beita sér fyrir því.

Við erum enn á sama stað, hv. þingmenn, að velta því fyrir okkur hvernig þetta þing á að klárast, hvernig á að halda áfram. Það er óþolandi að þingmannamál séu sett á dagskrá með þeim hætti sem hér er gert. Við getum haft alls konar skoðanir á þingmálinu, innihaldinu, en það eru þau vinnubrögð sem hér eru stunduð sem við erum að gera athugasemdir við. Þetta verður þá einfaldlega þannig að við munum halda áfram að gagnrýna forseta Alþingis, gagnrýna þingstörfin, þangað til bætt verður úr. Því að þetta er óþolandi.