148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[15:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin mun hafa uppgötvað það nú rétt fyrir þinglok að ýmis útgerðarfyrirtæki ættu í rekstrarvanda vegna þess hvernig staðið er að álagningu veiðigjalda. En þá hlýtur maður að velta fyrir sér: Hvernig stendur á því að sú tillaga sem á að drífa hér í gegn miðar ekki að því að rétta sérstaklega hlut þeirra fyrirtækja sem eru í mestum vanda, litlu útgerðanna og meðalstóru útgerðanna? Hvernig stendur á því að sá rökstuðningur, sem hér hefur verið lagður fram um mikilvægi þess að hleypa málinu í gegn, er ekki í neinu samræmi við tillöguna sjálfa, sem miðar ekkert sérstaklega að því að rétta hlut litlu útgerðanna sem verst hafa orðið úti með þeirri framkvæmd sem viðhöfð hefur verið um álagningu veiðigjalda? Getur virðulegur forseti útskýrt fyrir mér hvernig það getur farið saman?