148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[15:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mig langar að halda áfram með samlíkinguna þegar forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, var nýr á þingi 1983, en ég hef verið að lesa upp úr grein sem birtist í Helgarpóstinum það árið. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Þingmannastarfið leggst vel í mig og auðvitað vonast ég til þess að hafa einhver áhrif á þróun mála. Hinu er ekki að neita, að ríkjandi skipulag á þessari stofnun hefur tilhneigingu til að aðlaga nýliðana að sjálfu sér. Vissulega er hætta á því að nýir þingmenn verði fljótt „samdauna“ …

Nú erum við Píratar ekki orðnir það samdauna þessu kerfi að við tölum ekki enn þá fyrir því að við skulum virða það að hleypa öðrum að málum og ekki bara hafa forsetann sem hefur dagskrárvaldið. Við skulum tala meira saman og eiga meira samráð eins og kemur fram í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar um eflingu Alþingis. Forseti hefur þetta allt í hendi sér. Hann þarf ekki annað en að eiga lengri fundi, í staðinn fyrir að vera hérna að karpa um hvort við eigum að lengja þingfundinn, (Forseti hringir.) og setjast niður með þingflokksformönnum og finna lausn á þessu. (Forseti hringir.) Þetta er bara tímasóun vegna þess að forseti vill hafa dagskrárvaldið algerlega í sínum höndum en ekki eiga samráð um það. (Forseti hringir.) Þetta er algerlega á hendi forseta þingsins.