148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[16:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum nú að upplifa túlkun ríkisstjórnarinnar á auknu trausti í stjórnmálum og auknum veg Alþingis sem var sett fram sem sérstakt hliðarmarkmið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem var að öðru leyti heldur þunnur og innihaldsrýr. Nú erum við á fyrstu vikum þessa samstarfs og erum að upplifa hvað þetta þýðir í raun. Ég spyr þingheim: Hvernig halda menn að þetta verði næstu fjögur árin ef þetta er forsmekkurinn af því sem koma skal? Ég held að okkur liggi ekkert á að fara að tala hér inn í nóttina um dagskrá sem er byggð á sviknum loforðum. Ég held að við ættum frekar að skipta dagskránni út og ég treysti forseta til að gera það til þess að hér verði friður og sæmileg ró um þau mál sem við þurfum að taka á, sem eru mikilsverð.