148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[16:02]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns. Ég vil rifja það upp að hæstv. forseti er búinn að vera í þessum þingsal síðan ég var sex ára gamall. Það eru u.þ.b. 35 ár síðan hæstv. forseti talaði nákvæmlega á þeim nótum og við gerum hér. Hann hefur kallað eftir faglegri vinnubrögðum. Nú er hann í einstakri stöðu til að stunda þessi faglegu vinnubrögð. Það er eins og ætlun hæstv. forseta sé að leyfa þingmönnum að blása hér út undir hinum og þessum dagskrárliðum. Mér telst til að þetta sé sjöunda ræða mín um þetta mál. Það er svo sem allt í lagi. Ég held að við séum á ágætistímakaupi við þingmenn, fyrir umbjóðendur okkar, sem eru öryrkjar, aldraðir, fátækt fólk, stúdentar, ef við náum að koma í veg fyrir að hér séu færðir 3 milljarðar kr. til stórútgerðarinnar á sama tíma og vantar fjármuni víða í velferðarkerfið.

Ég skil ekki af hverju við getum ekki bara talað saman eins og fólk gerir á öðrum vinnustöðum. Hvers konar skrípaleikur er það að eiga þetta einhliða samtal við mann sem situr hérna bak við mig og segir ekki orð? (Forseti hringir.) Við erum að kalla eftir samtali. Það er ekkert hægt að hunsa þennan hluta salarins. Ég veit að hæstv. forseti er sammála mér. Hann þarf að sýna það í verki í staðinn fyrir að sitja og segja ekki neitt hérna á bak við mig.