148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[16:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Svo ég skýri það nú, því að það er alveg örugglega ekki orðið nógu skýrt, hvers vegna við Píratar ætlum að greiða atkvæði gegn því að lengja þingfund. Það er vegna þess að við stöndum gegn því að forgangsraða störfum þingsins á þennan hátt. Við stöndum gegn því að þetta mál fái flýtimeðferð í gegnum þingið, komi bakdyramegin alla leiðina út í samfélagið á sama tíma og verið er að greiða út gríðarmikinn arð til sjávarútvegsfyrirtækja og mörg önnur miklu þarfari mál bíða. Við eigum að lengja hér þingfund til þess að færa þeim gjöf. Ég get ekki samþykkt það. Píratar í heild sinni geta ekki tekið undir það, enda munum við öll með tölu greiða atkvæði gegn því að lengja þingfund þegar önnur og miklu þarfari mál bíða, þar á meðal lækkun kosningaaldurs, svo ég minni nú enn einu sinni á það þarfa mál.