148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Nú erum við búin að afgreiða nákvæmlega tvö dagskrármál á þessum fundi með þeirri niðurstöðu að 11. dagskrármálið fellur brott af dagskrá í dag. Ég skil ekki alveg til hvers var unnið akkúrat núna. Ég er að velta því fyrir mér hvers vegna ákveðið var að fara þessa leið í stað þess að reyna að komast að einhverju samkomulagi við okkur, hvers vegna ákveðið var að vinna svona gegn okkur þegar niðurstaðan var öllum ljós. Við erum búin að standa hér síðan klukkan hálfellefu í morgun. Megnið af þeim tíma hefur farið í að ræða um hvort taka eigi 11. dagskrármálið, um veiðigjöld, af dagskrá. Það hefur nú verið gert. Þetta er algjör tímasóun og fremur ömurleg fundarstjórn.